Skip to content

Hvað eru Grænir iðngarðar og hvernig geta þeir eflt Húsavík?

Grænir iðngarðar eru vettvangur fyrir iðnað sem setur sér skýr markmið um bætta nýtingu auðlinda. Með því að tvinna saman fjölþættan iðnað má skapa tækifæri til enn betri nýtingu auðlinda og það er það sem við erum að gera á Bakka við Húsavík. Leitast er við að fá inn á svæðið verkefni sem geta nýtt og skapað verðmæti úr auðlindum sem eru í dag að fara til spillis. Á Bakka er mikil varmaorka auk hráefnastrauma frá PCC. Þá eru á nærsvæði okkar verðmætar auðlindir sem hægt er að nýta til verðmætasköpunar, t.d. frá fiskeldi Samherja í Öxarfirði og frá fjölda fyrirtækja á svæðinu. Með því að samtvinna ólík verkefni ætlum við að skapa ný verðmæti og á sama tíma að vinna að vernd umhverfis og auðlinda okkar með fullnýtingu.

Haustið 2020 undirrituðu Norðurþing og Landsvirkjun yfirlýsingu um samstarf vegna greiningar á möguleikum þess að þróa iðnaðarsvæðið á Bakka sem vistvænan iðngarð (e. eco-industrial park) ásamt greiningu á möguleikum ólíkra iðngreina til að styðja við frekari uppbyggingu orkuháðrar atvinnustarfsemi á svæðinu samkvæmt markmiðum sveitarfélagsins.

Landsvirkjun og Norðurþing hafa síðan greintmöguleikana á að þróa áfram iðnaðarsvæðið á Bakka sem vistvænan iðngarð (e. eco-industrial park). Jafnframt hefur verið skoðað hvernig ólíkar iðngreinar geta stutt við frekari uppbyggingu orkuháðrar atvinnustarfsemi á svæðinu.Norðurþing leggur mikla áherslu á að frekari atvinnuuppbygging á Bakka hafi sjálfbærni að leiðarljósi og styðji við jákvæða samfélagslega og efnahagslega þróun svæðisins.

Mjög sterkir innviðir hafa verið byggðir upp á Bakka á undanförnum árum, ásamt því að orkuvinnsla Landsvirkjunar á Þeistareykjasvæðinu og flutningskerfi hefur verið eflt til muna. Aðgangur að sterkum innviðum ásamt nýtingu á endurnýjanlegum auðlindum svæðisins auka mjög tækifæri svæðisins til að hýsa fjölbreytta atvinnustarfi.

Hugmyndafræðin um vistvæna iðngarða byggir á heildrænni nálgun á uppbyggingu iðnaðarsvæða, með sjálfbærni að leiðarljósi. Mótaður er ákveðinn rammi um uppbyggingu svæðisins og lagður grunnur að víðtæku samstarfi fyrirtækja og ýmissa hagaðila sem samnýta innviði, aðföng og hráefnastrauma sína til að draga úr umhverfisáhrifum framleiðslu og styðja við nýsköpun. Uppbygging vistvænna iðngarða er í mikilli sókn á heimsvísu sem aðferð framleiðslufyrirtækja til að stuðla að aukinni sjálfbærni og til að ýta undir getu þeirra til að starfa eftir hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins.

Verkefnið var kynnt á fjölmennum íbúafundi á Húsavík haustið 2022 og í kjölfar þess var Karen Mist Kristjánsdóttir ráðin verkefnisstjóri að áframhaldandi þróun þessarar uppbyggingar. Opnun þessarar vefsíðu er liður í því að kynna verkefnið og tækifærin á Bakka, bæði fyrir íbúum, en ekki síður innlendum og alþjóðlegum fjárfestum sem sjá tækifæri í umhverfisvænni hugsun í sinni uppbyggingu og vilja vinna með okkur að því að efla samfélagið á Húsavík.

Örlygur Hnefill Örlygsson
forstöðumaður Húsavíkurstofu